Jákvæður kærleiksbjörn
Jón Logi Víðisson er fimmtán ára og er í Heiðarskóla. Fyrir utan skóla finnst honum gaman að taka ljósmyndir og myndbönd. Hann hefur gaman af því að vera úti í náttúrunni og skapa góðar minningar. Hann er UNG(menni) vikunnar.
Í hvaða bekk ertu? Ég er í 10 bekk.
Í hvaða skóla ertu? Heiðarskóla.
Hvað gerir þú utan skóla?
Aðallega að hitta krakkana eða taka myndir og myndbönd.
Hvert er skemmtilegasta fagið?
Að mínu mati þá er íslenska skemmtilegasta fagið.
Hver í skólanum þínum er líklegur til að verða frægur og hvers vegna?
Ég, því ég er svo svalur.
Skemmtilegasta saga úr skólanum:
Ætli það sé ekki þegar ég fór í vorferðalag með bekknum í 3. eða 4. bekk og ég klifraði upp í eitthvað tré og rétt fyrir ofan mig var geitungabú og ég varð mjög hræddur. Svo komst ég ekki niður því ég flækti reimina mína í grein og ég var þarna upp í tré fastur og grátandi.
Hver er fyndnastur í skólanum?
Það eru margir fyndnir en ég er auðvitað fyndnastur.
Hver eru áhugamálin þín? Áhugamálin mín eru að taka ljósmyndir, að vera úti í náttúrunni og að skapa góðar minningar.
Hvað hræðistu mest?
Hinn eina sanna dauðann.
Hvert er uppáhaldslagið þitt?
Einn dans við mig með Hemma Gunn.
Hver er þinn helsti kostur? Ábyggilega það að ég er oftast jákvæður.
Hver er þinn helsti galli?
Ég er með mjög mikinn athyglisbrest.
Hvaða forrit eru mest notuð í símanum þínum? Það hlýtur að vera Instagram og Snapchat.
Hvaða eiginleiki finnst þér bestur í fari fólks? Örugglega þegar fólk er heiðarlegt.
Hvað langar þig að gera eftir grunnskóla? Mig langar að skella mér í framhaldsskóla, vinna meira með myndirnar mínar og bara lifa lífinu.
Ef þú ættir að lýsa sjálfum þér í einu orði hvaða orð væri það? Ég myndi lýsa mér sem kærleiksbirni.